Tuesday, January 14, 2014

Skiptinemi á ný

Núna árið 2014 er ég staddur í Guatemala á heimili vinar míns, sem ég kynntist í Þýskalandi, nánar tiltekið í Bæjaralandi (Bayern), árið 2004.  Ég hef ætlað að koma hingað alveg frá því að við kvöddumst á lestarstöðinni í München sumarið 2004 og fyrir nýliðin jól varð heimsókn til hans loksins að veruleika.
Um leið og ég er í heimsókn hér, er ég líka að sinna námi á Roosevelt spítalanum, sem er nokkuð líkt því og þegar ég var skiptinemi í München skólaárið 2003/2004, nema það var menntaskóli.  Það er þó margt líkt með dvölinni núna og dvölinni þá: Ég bý hjá nýrri fjölskyldu, ég tala ekki málið almennilega, þekki nánast engan, skil ekki almennilega þegar fólk talar, veit ekki hverjar hefðir og venjur eru, þekki ekki óskrifaðar reglur, er ókunnugur matar- og drykkjarvenjum og svona mætti lengi telja.  Ég er því nokkurn veginn að upplifa það upp á nýtt að vera skiptinemi, auk þess sem að ansi margt frá Þýskalandsdvölinni rifjast óhjákvæmilega upp.

Þegar ég var í München, þá sendi ég nokkur fréttabréf með tölvupósti til þeirra sem ég þekkti og höfði þá aðgang að veraldarvefnum (sem voru ekki allir eins og í dag).  Þá vissi ég heldur ekki hvað blogg var, líkt og ég er að gera núna, auk þess sem ég hafði ekki alltaf aðgang að tölvu, þannig því miður urðu þessi fréttabréf bara nokkur og náðu ekki nema fram að áramótunum 2003/2004.  Eftir það var ég kominn svo vel inn í málið, inn í samfélagið, inn í skólalífið, hafði eignast vini og var farinn að þekkja inn á hluti, þannig að ég var í raun of upptekinn við að upplifa lífið, að ég gaf mér ekki tíma til að skrifa um það.  Dagbókin mín var þá stafræna myndavélin, sú fyrsta sem ég eignaðist, og rifjast ýmislegt upp þegar ég skoða myndirnar með vini mínum hér í Guatemala.

Eitt af því sem skiptinemum er kennt í undirbúningnum fyrir brottför, er að hlutirnir eru öðruvísi í öðrum löndum, þeir eru ekki endilegar verri eða betri en við þekkjum, hlutirnir eru ekkert endilega skrýtnir, þótt okkur kunni að virðast það, einfaldlega öðruvísi.  Þetta er lexía, sem ég hef þurft að rifja ansi vandlega upp hérna, enda er ég búinn að búa á nokkrum stöðum í Evrópu, ferðast um alla Evrópu, sem og vera á spítölum í Evrópu, og lífið hefur hvergi slegið mig jafn hressilega utanundir og hér.  Ég veit vart hvar ég á að byrja, en staðreyndir er einfaldlega sú að ég er búinn að fá nokkur kúltúr sjokk, sem ég hef kosið að íslenska sem "menningarlost", síðan ég kom hingað.  Lífið hér er einfaldlega gjörólíkt því sem ég og langflestir, sem þetta lesa, eiga að venjast.  

Nákvæmlega hvað er öðruvísi og hvernig er erfitt að setja niður á blað, en ég mun reyna að fara skipulega í það í komandi færslum, og um leið bera saman hvernig hlutirnir eru hér, hvernig á Íslandi og líka hvernig ég upplifiði svipaða hluti í Bæjaralandi, þegar ég var þar fyrir 10 árum.  Því þótt Þýskaland sé ekki eins langt frá Íslandi og Guatemala, þá er samt ansi margt, sem er ansi öðruvísi þar líka.

Bara að taka sem dæmi, þá hef ég hvergi séð eins mikið af gaddavír í kringum hús, bara venjuleg íbúðarhús, og hér.  Hvergi hef ég séð jafn mikið af þungum vopnum og hér, þ.e. haglabyssur og hríðskotabyssur við alla banka, mörg apótek, margar verslanir, í verslanamiðstöðum og m.a.s. á spítölum.  Aðra eins umferð og hér hef ég ekki upplifað, nema kannski í Istanbúl, en það var fólk á tveimur jafnfljótum, hér er varla ferðast öðruvísi en á bílum og bifhjólum og lítið um almenningssamgöngur.  Og svo er það fátæktin.  Ég hef einu sinni áður séð jafn svakalegan mun á þeim sem eiga peninga, og þeir sem eiga ekkert, og það var í Moskvu, Rússlandi.  Fátæktin hér er gífurleg og greinileg.  Það er augljóst hverjir eiga peninga og hverjir ekki.  Stéttaskiptingin er síðan í samræmi við þetta.  Þetta hefur fengið á mig og hef ég líka nú þegar upplifað að koma inn á fátæk heimili, sem eru ekki einu sinni fátæk á mælikvarðanum hér, og m.v. hvernig hlutirnir voru á þessum heimilum, þá vil ég helst ekki vita hvernig hin virkilega fátæku líta út.

Þessi stéttaskipting og bil fátækra og ríka hefur fengið nokkuð á mig og er þetta mjög augljóst á Roosevelt spítalanum.  Þangað fara þeir sem ekki eiga peninga, og er öll þjónusta ókeypis; -en þrátt fyrir að vera ókeypis, þá fylgir því ákveðinn kostnaður: Fórnarkostnaður.  Í hverju hann felst held ég að hægt sé að súmmera upp í gæði þjónustunnar, þ.e.a.s. þjónustan er veit af fjársveltu kerfi og er því langt frá því sem við eigum að venjast í Evrópu.  Fæstir Íslendingar myndu getað hugsað sér að fara á bráðamóttöku hér, nema þá á einkaspítala.  Það er því oft ansi átaklegt það sem gengur á, og er ég bara búinn að vera hér í 2 vikur!

Á morgun er önnur vaktin mín, þannig ég verð að fara að sofa, 30klst framundan á morgun.  Ef ég mögulega get, þá ætla ég að taka fyrir einhvern vel valinn samanburð seinna í vikunni, t.d. fólkið, matinn, húsnæði, veður, menningu, eða eitthvað slíkt.  Af nógu er að taka, enda kominn tími til að ég setji allar pælingarnar niður á blað, eða tölvu, enda fáir hérna sem ég get tjáð mig almennilega við (sem er einmitt eitt af þeim fjölmörgu einkennum þess að vera skiptinemi).

No comments:

Post a Comment