Titillinn kann að hljóma eins og klisja, en mér er alveg sama. Fyrir mér eru þetta nánast heilög sannindi. Það hefur stundum verið sagt við mig, að það þurfi ekki mikið til að gleðja mig, og að vissu leiti er það satt, því ég gleðst mest, hlæ mest, og brosi mest yfir einföldum hlutum, einhverju litlu, hversdagslegu, sem þó hefur djúpstæð áhrif á mig þannig ég kætist svo um munar. Í kvöld gerðist eitt slíkt atvik, þegar mér færð lítil en einstaklega falleg og hugulsöm gjöf.
Dagurinn í dag er búinn að vera sérlega góður. Hann byrjaði með því að ég vaknaði við læti frammi á gangi, sem er allt í lagi, því stuttu síðar var haldið í morgunverð á sérlega skemmtilegum stað inni í Guatemalaborg. Ég var ekkert sérlega þreyttur, þrátt fyrir að við félagarnir fórum í útskriftarteiti læknanema í gærkvöldi, þar sem ég gat loks svalað dansþorstanum, sem hefur verið mikill upp á síðkastið. Það var mjög gaman að sjá hvernig gvatemalskir læknanemar skemmta sér, en í rauninni er ekki mikill munur á því og hvar annars staðar. Það voru í boði áfengir drykkir, hávær tónlist, og það var dansað, spjallað, drukkið, osfrv. Þrátt fyrir að við höfum komið heldur seint heim í gærkvöldi, þá
var lítið um erfiðleika við að vakna.
Við fórum ásamt fjölskyldunni (amman, afinn, frændinn og frænkan eru alltaf með) á mjög skemmilegan veitingastað/kaffihús, sem var ansi evrópskur, þrátt fyrir að vera Gvatemala morgunverði og mexíkanska morgunverði á boðstólnum. Eftir að hafa snætt vel, þá varð ég skoða úrvalið í bakaríinu/búðinni, sem er hluti af þessum veitingastað, og það var eins og að koma inn í evrópskt bakarí, enda mikið af vörum alls staðar að úr Evrópu og í bakarísborðinu voru kökur og kex að frönskum hætti. Ég réð ekki við mig og varð að kaupa sætindi til að hafa í desert seinna um daginn; sem var mjög góður leikur.
Heima fyrir borðuðum við svo hádegismat uppúr kl. 16. Það er mjög eðlileg í Gvatemala að hádegismaturinn sé borðaður soldið eftir hádegi, en um helgar teygir þetta sig fram á kaffitíma, en í staðinn er enginn kvöldmatur. Það var grillað í dag, bæði einfalt og marinerað nautakjöt, og með því var heimatilbúið salsa og guacamole. Með þessu var drukkið chileskt carmenére, fyrst einfalt carmenére og svo annað þroskaðra. Þetta var hin dásamlegasta máltíð, sem við borðuðum í bakgarðinum undir tjaldhimni, en það sem stóð uppúr var seinna vínið, sem ég keypti hér fyrir mánuði og hef verið að bíða eftir. Vel þroskað carmenére eru vín, sem ekki fæst mikið af á Íslandi, og sennilega ekki mikið utan latnesku Ameríku, en eru algerlega þess virði að hafa með góðri máltíð (sérstaklega kjöti), enda fellur kryddið og hið mikla berjabragð sérlega vel við rautt kjöt. Eftir að hafa notið kjötsins, þ.á.m. "adobado", sem er sérstakur, eldrauður kryddlögur, sem hér er notaður og er sérlega ljúffengur, þá var komið að kaffi og kökunum, sem keyptar voru í morgun. Allar voru þær einstaklega ljúffengar og settu punktinn yfir i-ið. Ég var einkar sáttur við þetta allt saman, og eftir allan matinn þá fóru ég, Gabriel og fjölskylda að skoða myndir, frá því við vorum saman í Bayern. Þetta var virkilega gaman og fyndið að sjá hvað við höfum í raun lítið breyst, fyrir utan skeggin okkar.
Þetta var því sérlega góður dagur, góður endir á góðri helgi, eftir langa og erfiða viku, og ég fór því að taka mig til fyrir morgundaginn og vaktina fram á þarnæsta dag. Koma þá ekki Gabriel og kærasta með svolitla gjöf handa mér. Ég vissi nokkurn veginn hvað þetta var, því ég vissi að kærastan var að sauma eitthvað fyrir mig, en ekki hafi ég hugmynd um að það yrði innrammað og búið að skrifa, eða réttara sagt sauma, lítil en afar falleg skilaboð inn í mynda, auk þess sem þau römmuðu það inn líka! Ég er nú með rammann við hlið mér, með þessum jú einstaklega fallega útsaumi og einföldum og skýrum skilaboðum, sem fylgja myndinni. Ég brosi enn, þar sem ég sit og skrifa þessa færslu, og mun ég reyna að finna þessum ramma sérstakan stað á framtíðarheimili mínu. Þessi gjöf er í sjálfu sér lítil og einföld, en hugurinn sem fylgir henni er þannig að ég get ekki annað en brosað hringinn og þakkað mínum sæla fyrir að þekkja svona yndislegt fólk.
No comments:
Post a Comment