Wednesday, January 8, 2014

Fyrsta vaktin...

Á morgun verður fyrsta vaktin mín á skurðlækningasviði Roosevelt Spítala í Guatemala-borg.  Þar verð ég með lærlingum á skurðlækningasviði á vakt á bráðamóttökunni, sem er sú verst skipulagða og verst búna bráðadeild sem ég hef komið á (sem eru svosum ekki svo margar, en þessi lítur út fyrir að vera 50 ára gömul).  Ég mæti á venjulega vinnudag í holsjáraðgerðir (sennilegt allt gallblöðrutökur) kl. 07:30 og svo kl. 15 hefst vaktin, alveg fram á næsta morgun, þegar ég mæti aftur 7:30 í fleiri gallblöðru aðgerðir.

Ég er soldið órólegur fyrir morgundaginn, því ég á eftir að vera um 30klst á spítalanum, þ.á.m. alla nóttina á bráðamóttökunni, þar sem bókstaflega ALLT kemur inn; og við erum ekki að tala um einhverjar smáskeinur, heldur eru skotsár og alvarleg umferðarslys algeng þar.  Hvað sem verður, þá verður þetta áhugavert, því þann litla tíma sem ég hef verið á bráðamóttökunni, þá hef ég sjaldan upplifað annað eins skipulagsleysi.  Læknar úti um allt, hver að þvælast fyrir öðrum.  Sjúklingar úti um allt, rúm við rúm frammi á gangi, með dreypi uppi að bíða eftir að fara eitthvert annað.  Engar tölvur, lítil starfsaðstaða, þrír sjúklingar inni á sama móttökuherbergi, sem er opið fram á gang, allt afar skítugt, brotnir gluggur, sprautur og jafnvel nálar enn á þeim, á gólfum og úti í glugga, engin matar- eða geymsluaðstaða f. læknana, varla biðaðstaða f. sjúklinga og aðstandendur, í stuttu máli, chaos.

Þetta á eftir að vera lærdómsríkt og öðruvísi.  Ég vona bara innilega að læra sem mest og komast heill frá fyrstu vaktinni.

Síðustu dagar hafa verið fínir og hef ég fengið að aðstoða við þónokkrar aðgerðir og er að komast inn í rútínuna hér og að læra á spítalann.  Fyrsta daginn voru 4 gallblöðrur, þar sem ég aðstoðaði við eina.  Í gær aðstoðaði ég við tvær og fylgdist með botnlangatöku.  Í dag voru síðan kviðslitsaðgerðir og ein lýtaaðgerð.  Ég lærði nokkrar mikilvægar lexíur í dag af þessum aðgerðum:

1. ALDREI skal svæfður sjúklingur vera skilinn eftir af svæfingateyminu án eftirlits.  Grundvallaratriði í svæfingalækningum er að ávallt er einhver sem fylgist með sjúklingi.  Vélarnar sjá ekki um það.  Ég gerði mér grein fyrir þessu þegar allt í einu fór svæfingalækinirinn á meðan "It's raining men" kom frá iSímanum.  Á meðan The Weather Girls sungu og skurðteymið hélt áfram að vinna, spurði ég hvert svæfingalæknirinn hefði farið.  Þau vissu það ekki og hann hafði ekki sagt orð við þau.  Þremur mínútum eftir hvarf hans kom hann aftur, sennilega þegar dömurnar í símanum orguðu Hallelujah.  Þarna gerði ég mér grein fyrir hvað vöktun sjúklings er mikilvæg í skurðlækningum.

2.  Ég lærði annað afar mikilvægt er varðar skurðlækingar, en ég ætla að geyma umfjöllun um það til betri tíma.

Góða nótt og góða vakt!

No comments:

Post a Comment