Monday, January 13, 2014

Spítalinn og Ræktin

Í dag var líklega besti dagurinn hingað til á Roosevelt spítalanum hér í Guatemala, en í dag var einmitt dagurinn sem ég snéri mér að svæfingunni, frekar en aðgerðinni.  Ég mætti snemma og byrjaði á því að aðstoða með gallblöðrutöku kl. 07:30.  Mjög snemmt sem sagt.  Síðan voru ekkert nema gallblöðrur og í rauninni langaði mig að gera eitthvað annað, þannig ég vatt mér að svæfingalæknunum, sem voru boðnir og búnir að sýna mér og leyfa mér að anda fyrir sjúklingana og barkaþræða, sem ég og gerði.  Það var frábært að fá aftur að vera hinum megin við "gardínuna", þ.e. ekki skurðmegin, þótt vissulega sé auðvelt að fylgjast með yfir tjaldið, sem er afar lágt í þessum aðgerðum.

Síðan kom yfirlæknirinn og vildi fá mig með í aðgerðina, þannig þriðja barkaþræðingin varð að bíða, en í staðinn þá leyfði hann mér að gera ýmislegt í aðgerðinni og var að útskýra og kenna mér og sérnámslækninum, sem var með, þannig það var gott.

Eftir þá aðgerð ákvað ég að staldra við og beið inni á vöknun og fór yfir sjúkraskrár, sem allar eru handskrifaðar, og var að kynna mér sögu þeirra sem höfðu verið í aðgerðum.  Ræddi einnig við hjúkrunarfræðingana og sjúkraliðana, sem fóru í fyrsta skipti að spyrja hvaðan ég væri, hvað ég væri að gera hér og ýmislegt fleira um mig og Ísland, eitthvað sem þær hafa ekki gert hingað til.

Það er soldið síðan ég gerði mér grein fyrir því að Ísland væri lítið peð á alþjóðavettvangi, en hérna í latnesku Ameríku, þá er það undantekning ef fólk veit hvar Ísland er.  Flestir sérfræðilæknanir vita það, en þeir minna menntuðu og almenningur almennt, veit ekkert hvar Ísland er. Ég er fyrsti Íslendingurinn sem flestir hitta hérna, og í ræktinni í dag, þá sagði eiagandinn, sem er einmitt íþróttalæknir, að ég væri fyrsti Íslendingurinn sem hann hittir.

Gimnasio Palaiestro heitir ræktin, sem er rétt fyrir utan hverfið sem ég bý í, og er gömul, dimm og einhver myndi kalla skítug, en hún hefur sál.  Mörg lóðin er ryðguð og tækin um 20 ára gömul, en eigandinn er sextugur íþróttalæknir, menntaður í Guatemala og Róm, og hann er þegar búinn að taka mig í kennslustund í hvernig hlutirnir virka hérna.  Hann segir t.d. að heilbrigðiskerfið hér hafi ekkert batnað frá því hann var í mínum sporum og ef eitthvað er, þá hafi það versnað.  Hann staðfesti líka það sem mig grunaði eftir vatkina, að öllum er sama.  Kerfið er fjársvelt, þeir sem ráða eru spilltir, þrátt fyrir að allt sé fáanlegt, þá hafa ríkisspítalar ekki efni á því og peningarnir, sem þeim er úthlutað, fara víst í misjafna hluti.  Ég ræddi þetta aðeins við hjúkrunarfræðingana í dag, og þær sögðu það sama, spilling og slæmur rekstur.  Svæfingalæknarnir segja alltaf að þeir vinni með það sem þau hafa, sem er mun minna en á litlum spítala á Íslandi; og þeir eru litlir!

Íþróttalæknirinn í ræktinni setti þetta mjög skýrt fram:  "Þeir sem eiga peninga hafa aðgang að menntun og heilsu.  Menntun og heilsa eru forréttindi, ekki mannréttindi eins og víða annars staðar."

Þetta setti hlutina í nokkuð gott samhengi.  Fólk sem á peninga hér fer ekki á ríkisspítalana, það fer á einkarekin sjúkrahús.  Þeir sem ekki eru tryggðir, eða eiga lítið af peningum, þeir fara t.d. á sjúkrahúsið sem ég er á, og þangað koma bókstaflega öll tilfelli sem hægt er að ímynda sér.  Ræktarlæknirinn hefur talað þónokkuð við mig, og er vel að sér um Evrópu, enda sérhæfði hann sig sem íþróttalæknir í Róm, og ferðaðist einnig með ólympíuliði Guatemala á 3 Ólympiuleika.  Hann talar um hvernig Norðulöndin og Þýskaland hafa góða læknisfræði, og talar um allt það viðgengst hér, en ekki í Evrópu og Bandaríkjunum.  Hér gera læknanemar og sérnámslæknar allt, því ef þeir gera það ekki, þá gerir það enginn.  Til dæmis eru læknanemar mikið í því að taka á móti börnum og eru 6. árs nemar jafnvel að framkvæma keisaraskurði.  Þetta leiðir vissulega til þess að læknar hér og læknanemar fá gífurlega reysnlu, en ábyrgðin hlýtur að vera gífurleg, og líklega of mikil fyrir fólk á þessu stigi.  Mér hefur því dottið í hug, að þessi tilfinnin sem ég hef, þ.e. að öllum sé einfaldlega sé sama, sé einhvers konar varnarmekanismi gagnvart því sem læknar, læknanemar og hjúkrunarfræðingar hér eru útsettir fyrir.  Íþróttafrömuðurinn talaði einnig um að það vantaði líka samviskuna í heilbrigðiskerfið og starfsmenn þess, en mig grunar að til þess að lifa af í því umhverfi sem hér ríkir, þá verður samviskan að einhverju leiti að láta undan, hreinlega til þess að lifa af sjálfur.

1 comment:

  1. Þetta er skelfileg tilhugsun að svona lagað skuli viðgangast 2014 en einhvernveginn grunaði mig þetta eftir síðasta lestur. Ég var einmitt að útskýra þetta fyrir henni dóttur minni með aðstæðurnar á spítalanum hjá þér og sagði henni að ríkið ætti enga peninga en þeir ríku ( og sumir spilltu ) fengju þá þjónustu sem þeir þyrftu. Munurinn er svo mikill á milli ríkra og fátækra á þessu svæði. Skelfilegt en lærdómsríkt!

    ReplyDelete