Wednesday, February 26, 2014

Mig langar heim

Það er soldið skrýtið að hugsa til þess að þau skipti, sem ég skrifa eitthvað, eru einmitt þau skipti þegar tilfinningar þurfa að vera deildar með öðrum.  Ég hef tekið eftir þessu á samfélagsmiðlum, að yfirleitt þegar fólk er að skrifa, þá er það vegna tilfinninga, sem það er að upplifa; og yfirleitt er það gleði, en það geta líka verið neikvæðari, s.s. reiði eða vanlíðan.  Í þetta skipti sem ég skrifa, þá er það fyrst og fremst magapína sem gefur mér tíma og ástæðu til þess að skrifa loksins aftur.

Í öll þau skipti, sem ég hef verið að heiman, þá hefur mér sjaldan langað heim, því ég hef alltaf verið í burtu af fyrirfram gefinni ástæðu, sem ég hef ákveðið sjálfur að vel ígrunduðu tilefni.

Ég man þegar ég fór til München í byrjun september 2003, þá aðeins 17 ára gamall, að mér leið ekki alltaf vel í byrjun og alveg fram á vormánuði, þar sem mér leið ekki nógu vel, en ég hafði tekið ákvörðun um að vera ár í burtu, ég ætlaði að læra þýsku og ég ætlaði að þrauka, hvað sem á dundi. Ég hafði markmið og ég fór eftir því, alveg þangað til ég átti að fara heim, en þá hafði ég lært þýsku svo vel og lifað mig svo vel inn í samfélagið í München, að ég vildi vart snúa aftur til Íslands.

Ferðalögin, sem ég hef farið í eftir skiptinemadvölina í Þýslandi, hafa einnig verið þess eðlis að ég hef viljað fara í þau og hef notið þeirra og sjaldan saknað Íslands, eða langað heim (þó sakna ég alltaf vatnsins og fersks fisks, enda ekki mörg lönd, sem státa af slíkum gæðum).

Eftir 2. ár læknisfræðinnar, þá voru fjölmargar ástæður fyrir því að ég fór burt í ár, en sérstaklega mikill námsleiði og vilji minn til að læra frönsku og spænsku.  Ég hafði það markmið að geta talað þessi 2 tungumál, og þegar því markmiði var náð og ég var búinn að vera á flakki (þó ekki stanslausu) í 8 mánuði, þá var ég nokkurn veginn tilbúinn að snúa aftur til Íslands, enda búinn að uppfylla markmiðin, Heimleiðin var þó 3 mánuðir, en á meðan á þeim stóð ferðaðist ég víða, hitti marga, lærði mikið, bætti tungumálin og heimsótti bernskuslóðir.  Ég snéri því heim ánægður og heilmikilli reynslu ríkari.

Eftir Evrópureisuna 2009/2010 þá hef ég ekki verið jafnlengi (og hvað þá jafnlangt í burtu) frá Íslandi fyrr en nú.  Fyrst 7 vikur í Guatemala og nú rúmlega 2 vikur í Perú.  Þetta er búinn að vera magnaður tími og ég búinn að sjá og læra ótrúlegustu hluti.  Gvatemala var eitt stórt, afar öðruvísi, ævintýri, sem ég hefði ekki vilja missa af, og hingað til hefur Perú verið nokkuð magnað, sérstaklega ferðalagið til Cusco og Machu Picchu um nýliðna helgi.  Það er þó einn galli á gjöf Njarðar, en það er hið endalausa meltingarvesen, sem hefur skyggt á dvöl mína í hinni latnesku Ameríku.

Á öllum mínum ferðalögum um Evrópu, þá hefur maginn á mér verið nokkurn veginn í lagi, ef undanskildir eru nokkrir dagar á Interrai-ferðalaginu 2006.  Hins vegar hefur magapest verið nánast vikulegur viðburður síðan eftir s.l. jól.  Núna á 3. vikunni minni hér í Perú, þá er ég rúmliggjandi í annað skiptið með ástand sem ég kalla gullfoss (já, ekkert stórt "G", því ekki er að ræða sérnafn), með tilheyrandi kviðkvölum, flökurleika, svima og slappleika.  Hvað þetta er veit enginn, en ég er búinn að komast að því að meltingarfæri mín hafa hlotinn mikinn skaða á s.l. 2 mánuðum, eða þá að pöddurnar í matnum hér sé einstaklega vel við íslenskt blóð.  Þetta er ástæðan fyrir titli þessa pistils, því eftir að hafa tekið allan andskotann af lyfjum, þá virðist ég ekki ætla að fá bót meina minna, þannig að ekki bara er meltingarvegurinn í rugli, heldur er þetta farið að naga sál mína líka.  Það er a.m.k. einstaklega pirrandi að hver magaflensan elti aðra, þrátt fyrir að fara varlega hvað viðkemur mat og drykk.

Þótt mig langi heim í augnablikinu, þaðan sem ég skrifa þetta, þá er það ekki inni í myndinni.  Ég setti mér það markmið að vera þessa 3 valtímabilsmánuði mína í Mið- og S-Ameríku, til þess að læra meiri spænsku, læra meiri læknisfræði og jafnframt sjá meira af heiminum.  Ég vissi alltaf að ég myndi fá í magann; ég bara vissi ekki að það myndi vera svona langvarandi og draga jafnmikinn kraft úr mér og raun ber vitni.  Ég get þó sagt að ég hef lært ansi mikið hvernig á að meðhöndla matareitranir, magakveisur, uppköst og niðurgang, sníkjudýr og flest það sem viðkemur því að vera með sýktan meltingarveg í framandi löndum.  Það er ekkert svo slæmt að ekki sé hægt að sjá eitthvert gagn eða jákvæðni í því :-)

Það er þó alveg víst að ég verð feginn að komast aftur á Klakann, geta drukkið vatn úr krana aftur, fengið ferskan og öruggan mat, þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að allt sem ég borða gæti valdið mér skaða, og vonandi þurfa ekki að taka meiri meltingarfærameðöl.

No comments:

Post a Comment