Það er miður dagur í Arequipa, glampandi sól og það er verið að skjóta upp flugeldum. Ég held a.m.k. að þetta eru flugeldar, því þeir hljóma þannig, trúi vart að það sé verið að sprengja eitthvað annað hérna í nágrenninu.
Mér tókst að vakna í morgun og koma mér á lappir, en eftir því sem leið á morguninn, þá fór svimi og óstöðugleiki á fótum að gera vart við sig. Læknirinn, sem ég var með að sinna sjúklingunum, skipaði mér að drekka saltdrykki og taka Bismutol, afar bleikt og þykkfljótandi magameðal, sem ég og gerði, en er kominn í bælið, því vart vænlegt til árangurs að ráfa um óstöðugur. Vona bara að þetta verði allt liðið hjá þegar barnalæknarnir koma aftur í næstu viku, því þeir eru í fríi þessa vikuna. Það er soldið skrítið að vera á barnaspítala, þar sem ekki eru barnalæknar, en svona er þetta víst hérna...
Í gærkvöldi fór rafmagnið tvisvar af Arequipa borg og í morgun voru enn hverfi án rafmagns. Sem betur fer er neyðarrafstöð hérna á spítlanum, sem tók við sér eftir 40 sekúndur, þannig að spítalinn sjálfur var í lagi. Það virðist þó ekki allt hafa verið í lagi, því villtu hundarnir hérna fyrir utan geltu eins og brjálaðir og viðvörunarbjöllur eða sírenur voru vælandi úti um allt.
Hvað öllu líður, þá virðist sem að ég hafi tekið eitthvað með mér heim frá Machu Picchu eða Cusco, sem ekki er að gera mér mjög gott. Ég get bara vonað að þessum meltingarhamförum fari að linna þannig að ég geti haldið áfram að læra einhverja læknisfræði hérna í Perú.
No comments:
Post a Comment